Ég veit ekki alveg hvernig ég á að taka því þegar sagt er við mig að ég sé eiginlega ekkert einhverf eða hafi læknast af einhverfunni vegna þess að ég hef svo sterkan vilja.
Þessi orð voru víst vel meint, en kannski óheppilegt orðaval þar sem það var aldrei neinn sjúkdómur til staðar til að lækna.
Það er hins vegar rétt að ég hafði mjög sterkan vilja eða réttara sagt þráhyggju frá unglingsaldri yfir því að vera ekki álitin skrýtin af öðrum. Þessi þráhyggja hefur mótað mig í manneskju sem sýnir fá einhverfueinkenni, en ég veit ekki hvort ég ætti að vera ánægð eða stolt af því lengur, frekar sorgmædd.
Þessi gífurlega vinna og orka sem fór í að þjálfa mig upp í að koma ekki öðrum fyrir sjónir sem „skrýtin“ hefði getað farið í að sinna öðrum hlutum. Ég er hrygg yfir því að hafa mestan part ævinnar hatað einhverfueinkenni mín og stöðugt að reyna að breyta sjálfri mér. Það var svo sárt að geta aldrei verið ég sjálf og alltaf skíthrædd um hvað öðrum finndist um mig.
Þessi gríma eða lærða hegðun sem ég eyddi svo gríðarlega mikilli orku í, hún er ennþá til staðar og það að segja öðrum frá því að ég sé einhverf dugar ekki til að fólk sjái hvað er undir henni.
Stundum velti ég því fyrir mér hvernig líf mitt væri ef ég hefði ekki þurft að setja upp þessa grímu og vitað frá barnsaldri að ég væri einhverf og verið kennt að vera ánægð með mig á þeim forsendum. Væri ég hamingjusamari? Myndi ég vera að gera eitthvað rosalega sérhæft á háum launum?
Fleiri íslenskir einhverfurófsbloggarar
Mínar síður
-
Nýlegar færslur
Færslusafn
Flokkar