Um plötuna mína „Ljóðin um veginn / 往く途の詩“

dikipak-front

Mig langar til að segja aðeins frá því hvernig platan mín „Ljóðin um veginn / 往く途の詩“ varð til. Þetta er konsept-plata byggð á tíu ljóðum úr samnefndri ljóðabók Kristjáns Hreinssonar sem kom út árið 2011. Þó svo ég flokki plötuna sem popp eða dægurtónlist, þá eru klassísk áhrif greinileg þar sem ég er fyrst og fremst lærð í klassískri tónlist.

Þetta hófst allt á því að ég var að sækja um styrki til að gera mína fyrstu plötu, sem átti að vera popptónlist í anda laganna „Skrýtin“ og „Itsuka“ og ég hafði líka hugsað mér að hafa þau lög með á plötunni en þau passa ekki inn í konseptið.

Ég sendi umsókn til Tónlistarsjóðs Kraums fyrir um það bil þremur árum sem Jóhann Ágúst Jóhannsson framkvæmdastjóri svaraði, en í umsókn minni kom m.a. fram að ég ætti í erfiðleikum með að semja mína eigin lagatexta. Jóhann benti mér á að Kristján Hreinsson eigi alltaf til nóg af góðum textum og stakk upp á því að ég hefði samband við hann.

Í framhaldi sendi ég Kristjáni skilaboð á Facebook og myndaðist fljótt með okkur vinskapur. Ég fór í heimsókn til hans til að ræða samstarf þar sem ég fengi að nota textana hans til að semja lög við. Hann var mjög opin fyrir því öllu saman og gaf mér m.a. nýútgefna ljóðabók sína „Ljóðin um veginn“ sem var gefin út árið 2011. Sú hugmynd kom síðan upp að ég myndi semja lög við tíu ljóðanna úr þeirri bók og gefa út plötu, en mér fannst tíu passlegur fjöldi laga fyrir mína fyrstu breiðskífu.

Ég vissi strax að platan yrði konsept-plata þar sem lögin tíu yrðu óneytanlega skyld tónsmíðalega og útsetningslega hugsuð sem ein heild. Val á ljóðunum var persónuleg og urðu þau ljóð fyrir valinu sem ég fann mesta tengingu við, en það eru hvorki meira né minna en 58 ljóð í ljóðabók Kristjáns.

Ákveðið var fyrirfram að lögin skyldu koma fyrir á plötunni í sömu röð og í ljóðabókinni, einnig að lögin skulu vera ýmist hæg eða hröð, í dúr eða moll, með þrískiptan takt (6/8 eða 12/8) eða í hefðbundnum fjórskiptum takti eins og flest popplög eru.

Ábyrgð : hratt, dúr, þrískiptur taktur, en varð óvart bland af þrískiptum og fjórskiptum
Viska: hratt, moll, fjórskiptur taktur
Vinátta: hægt, dúr, fjórskiptur taktur
Bjartsýni: hægt, moll, þrískiptur taktur
Sannsögli: hratt, dúr, fjórskiptur taktur
Kærleikur: hratt, moll, fjórskiptur taktur
Þakklæti: hægt, dúr, þrískiptur taktur
Sanngirni: hægt, moll, fjórskiptur taktur
Samstaða: hratt, dúr, fjórskiptur taktur
Trú: hratt, moll, þrískiptur taktur

Sjáið þið mynstrið í þessu fyrir ofan? 🙂

Tóntegundir og hljómaraðir laganna voru einnig ákveðnir fyrirfram með því að telja hversu oft ákveðnir stafir koma fyrir í ljóðunum að titlinum meðtöldum. Hér tek ég ljóðið “Ábyrgð” sem dæmi :

Ábyrgð

Hlýir straumar hér og nú
í hjarta eru tryggðir
ef ábyrgð þín er einkum sú
að iðka fagrar dygðir.

Að fá að meta rangt og rétt
mun reynast mikils virði
því ábyrgð þín er ekki létt
og ekki heldur byrði.

Ef við þér blasir vonin hlý
þá veit þinn hugur feginn
að fyllsta ábyrgð felst í því
að feta rétta veginn.

h – 6
i – 18
j – 1
k – 7
l – 9
m – 5
n – 15

Ég umbreytti stöfunum “h, i, j, k, l, m og n” í tónana “A, B, C, D, E, F og G”. Þá hugmynd fékk ég frá Ágústi Þór Benediktssyni kunningja mínum og bassaleikara/tónlistarmanni. Eftir umbreytinguna raðaði ég þessum tónum eftir fjölda, fæstir tónar efst og flestir neðst:

c – 1
f – 5
a – 6
d – 7
e – 9
g – 15
b – 18

Þessa tóna umbreytti ég síðan í hljóma og þá fékk ég út hljómaröðina:

C – F – A – D – E – G – B

Fyrsti hljómurinn ákvað tóntegundina og þar sem ég vildi hafa lagið í dúr þá varð fyrsti hljómurinn C-dúr.

Þá fór ég að glamra þessa hljóma á píanóið og fannst flott að hafa erindin svona:
C – F – (Dm – G)
Ég set Dm og G í sviga vegna þess að það eru hljómar sem ég skaut inn í til að láta dæmið ganga upp.

Brúin er síðan Am og Dm til skiptis, sem er þriðji og fjórði hljómurinn í hljómaröðinni og síðan E sem er fimmti hljómurinn:
Am – Dm – Am – Dm – Am – Dm – E
Það var smekksatriði hjá mér hvar ég vildi hafa dúr-hljóma og hvar moll-hljóma.

Viðlagið er síðan C og F til skiptis þar sem ég skýt Dm og G inn í lokin:
C – F – C – F – C – F- (Dm – G)

Ég gat ekki fengið sjötta og sjöunda hljóminn í röðinni til að passa inn í dæmið og sleppti þeim.

Hljómaröðin “C – F – A – D – E” varð að þessu:

Erindi: C – F – (Dm – G) x2
Brú: Am – Dm – Am – Dm – Am – Dm – E – – –
Viðlag: C – F – C – F – C – F – (Dm – G) x2

Með þessum skipulega hætti samdi ég hljómaraðirnar undir lögin tíu og laglínurnar komu síðan af sjálfu sér á meðan ég glamraði þessa hljóma undir.

Þar sem ljóðin voru of stutt fyrir átta af þessum tíu lögum og mér fannst það engan veginn málið að endurtaka sama textann aftur og aftur leysti ég málið með því að fá ljóðin þýdd yfir á japönsku. Þannig tókst mér að lengja þessi lög um helming.

Ég var svo heppin að þekkja Toshiki Toma sem gat þýtt ljóðin fyrir mig, en það er mjög vandasamt verk að þýða íslensk ljóð yfir á japönsku og aðeins þeir sem eru mjög vel að sér í japanskri ljóðagerð sem geta það. Ég er honum Toma alveg óendanlega þakklát, en hann gaf vinnu sína frítt af hreinni hjartagæsku og vildi ekki fá neitt greitt fyrir.

Þar sem ég er lærð á píanó þótti mér sjálfsagt að hafa sum lögin með píanó- eða einhverjum hljómborðsleik, og útaf því ég hafði reynslu af því að skrifa fyrir klassísk hljóðfæri (fiðlu, víólu, selló, kontrabassa, flautu, trompet, óbó, klarinett og fagott) fengu þau að hljóma einnig. Ég notaði bara sömpl af þessum hljóðfærum útaf því ég var ekki nógu fræg og rík til að geta fengið alvöru hljóðfæraleikara með mér og taka upp í almennilegu stúdíói 😛

Auk þessara hljóðfærasampla notaðist ég við ýmis sánd sem mér fannst töff og átti til í hljóðbönkum mínum, trommutaktana útbjó ég með hjálp ókeypis trommuforrits sem Davíð Guðjónsson Thoroddsen vinur minn benti mér á.

Sigurdór Guðmundsson vinur minn mixaði og masteraði tónlistina mína hefur sko sannarlega leyst það verkefni vel af hendi og færi ég honum miklar þakkir.

Ég tók upp allan söng, píanó- og hljómborðsleik sjálf, heima hjá mér í litlu herbergi í blokkaríbúð í Efra-Breiðholti. Maðurinn minn smíðaði hljóðeinangrandi kassa fyrir mig sem var frekar ófullkominn vægast sagt en kostaði mjög lítið að búa til. Hljómurinn á söngupptökunum er því dálítið kassaður eða boxaður eins og Sigurdór benti mér á. Ég stefni á að taka upp næstu plötu í alvöru stúdíó, held það borgi sig.

Aðstæður mínar síðustu þrjú ár hafa ekki boðið upp á að geta gert þennan disk betur, en ég hefði m.a. viljað betri upptökugæði, meiri tíma til að æfa sönginn og alvöru hljóðfæraleik.
Ég gat aðeins nýtt jóla- og sumarfríin mín til að vinna að þessari plötu því ég var í fullri vinnu og í djassnámi.

Ég veit að næsta plata verður betri en þessi og hlakka til að byrja á henni. Hún verður líka konsept-plata en í klassískum stíl fyrir kammersveit.

Takk fyrir áheyrnina 🙂

Um mamikodis

Mamiko Dís Ragnarsdóttir er tónlistarmenntuð og með kjánalega drauma um að geta verið í fullu starfi sem popptónlistar-/söngkona, tónskáld, lagasmiður, útsetjari og pródúser, en annars píanóundirleikari, tónlistar-/píanókennari og/ eða kórstjóri. Henni finnst æðislegt að vinna með börnum, en hefur m.a. reynslu af því að starfa á leikskóla, kenna forskóla og stýra tónlistarsamspili unglinga. Ef allir þessir draumar um að fá að starfa við tónlist eða tónlistarkennslu bregðast þá myndi hún helst vilja vinna á leikskóla vegna þess að hún hefur mesta reynslu og ánægju af því.
Þessi færsla var birt undir Tónlistarpælingar. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s