Vörumst það að vera svo spennt yfir greiningum okkar að vaða með það beint í fjölmiðla og vita ekki betur en að samþykkja t.d. að megi segja í fréttaflutningi að ég eigi erfitt með að setja mig í spor dóttur minnar sem var þá níu mánaða og einhverf án þess að við vissum það þá.
Dæmi um það sem túlkaðist e.t.v. þannig að ég setji mig ekki í spor dóttur minnar var að hún var oft óróleg eða pirruð vegna magakveisu og í rauninni lítið hægt að gera í því annað en að gefa henni magadropa. Halldór, maðurinn minn er áhyggjufulla týpan sem vildi taka hana strax upp við minnsta pirring á meðan ég gat tekið þessum óróleika hennar og pirringi með yfirvegun. Dæmi hver um sig hvort það sé merki um að ég setji mig ekki í spor dóttur minnar.
Ég hef alltaf fundið til mikils öryggis að hafa Halldór þarna til mótvægis við yfirvegun mína og áhyggjuleysi gagnvart dóttur minni. Ég geri mér ávallt fulla grein fyrir því að mér GÆTI skjátlast. Ég er alls ekki þessi týpa sem telur sig vita allt betur en aðrir og með allt á hreinu, heldur ráðfæri ég mig við aðra og fylgist vel með því hvernig aðrir taka á hlutunum í hinum og þessum aðstæðum og læri þannig smám saman.
Það er vel skiljanlegt ef leikskólastjórar treysta sér ekki til að ráða mig í vinnu hjá sér vegna þess að þessi fréttaflutningur um að ég eigi erfitt með að setja mig í spor dóttur minnar vill fólk yfirfæra á að ég eigi erfitt með að setja mig í spor barna almennt.
En það myndi einvörðungu byggjast á vanþekkingu og fordómum í minn garð vegna þessa fréttaflutnings.
Allir sem hafa starfað með mér náið t.d. á leikskólanum Sælukoti eftir að ég var búin að þrauka út reynslutímann og búin að leggja mig alla fram við að læra hvað það að vera leikskólaleiðbeinandi gengur út á ættu að geta verið sammála því. Samt er auðvitað ENGINN fullkominn og stundum komu upp aðstæður þar sem ég vissi ekki hvernig best væri að höndla og þá leitaði ég til annara starfsmanna.
Ég er mjög hrygg yfir því ef sú virðist vera raunin að leikskólastjórar vilja ekki ráða mig til starfa útaf þessari frétt, en svona er það að vera hvatvís og vita ekki betur þegar fréttamenn Stöðvar 2 sýna manni svona mikinn áhuga.
Mér finnst æðislegt að vinna með börnum á leikskóla og er það mest gefandi og skemmtilegasta starf sem ég veit um fyrir utan það að vinna í tónlist auðvitað 😉
Ég er gríðarlega þakklát Sælukoti og leikskólastjóranum þar fyrir þessi tvö ár sem ég starfaði þar. Á því tímabili tel ég mig hafa afsannað þessa kenningu um að ég „set mig ekki í spor barna“. Ég hef bæði sýnt og sannað að ég ber alla þá kosti sem hægt er að ætlast til af leikskólaleiðbeinanda, ef ekki umfram það.
Ástæðan fyrir því að ég sagði upp á Sælukoti var vegna þess að ég vildi freista þess að sækja um að leikskóla sem er ekki svona langt í burtu frá heimili mínu, en það fór svo gríðarlegur tími í strætóferðirnar fram og til baka og þar að auki var ég í djasspíanónámi.
Eftir tvö ár á Sælukoti var ég komin með svo mikið sjálfstraust sem leikskólastarfsmaður að það hvarflaði ekki að mér að aðrir leikskólar myndu ekki vilja ráða mig. Ég átti alveg eins von á því að leikskólarnir myndu slást um að fá að hafa mig í vinnu hjá sér.
En svona er veruleikinn fyrir konu eins og mig. Ég er atvinnulaus, en held enn fast í vonina um að vera ráðin á leikskóla nálægt heimili mínu.