Eins og ég hef talað um í þarsíðustu bloggfærslu þá er ég byrjuð að vinna að næstu plötu.
Hér er verkið „Fantasy“ sem ég samdi árið 2009 sem verður fimmti kaflinn af níu og sæki ég efniviðinn fyrir hina átta kaflana þaðan.
Titillinn á heildarverkinu „Sjö og þrír fjórðu“ er tilvísun í það að ég skipti „Fantasy“ í átta jafnlanga búta, sem eru nákvæmlega sjö taktar og þrír fjórðu úr takti.
Hver þessara búta er efniviðurinn í heilan kafla. Taktar 1 til 7 og 3/4 af takti 8 er efniviður fyrsta kaflans, 1/4 af takti 8, taktar 9 til 15 og 2/3 af takti 16 efniviður næsta kafla o.s.frv.
Ég er búin að ákveða fyrirfram hvaða tónsmíðaaðferð ég beiti á hvern bút/kafla fyrir sig:
1. Afturábak
2. Öfugur rytmi
3. Afturábak, réttur rytmi og speglun
4. Öfugur rytmi og speglun
6. Öfugur rytmi og speglun
7. Afturábak, réttur rytmi og speglun
8. Öfugur rytmi
9. Afturábak
Nú er ég búin að beita þessum tónsmíðaaðferðum á fyrsta, níunda, annan og áttunda kafla (í þessari röð) og er að vinna í þriðja kaflanum núna.
Ég er samt langt frá því að vera búin því að ég er enn bara í því að útbúa efnivið hvers kafla. Þegar ég er komin með á hreint úr hverju ég hef að moða í hverjum kafla fyrir sig þá hefst aðalfjörið. Aðalfjörið er láta þetta passa inn í einhvers konar form og láta það hljóma vel. Mikið er þetta spennandi!!! 🙂