Hvert og eitt okkar á einhverfurófinu ber misjafnlega sterk einkenni einhverfu, eins og það að þurfa að gera hlutina alltaf nákvæmlega eins og í sömu röð og finnast næstum ómögulegt að breyta til og streitast gegn öllum óvæntum breytingum frá dagsplani.
Ég get t.d. verið dálítið sveigjanleg varðandi það í sambanburði við þá sem eru mikið einhverfir.
Mér hefur tekist að pína sjálfa mig til að segja ósatt við sérstakar aðstæður, til að særa ekki eða ef ég skammast mín svo sjúklega mikið fyrir eitthvað, á meðan þeir sem eru með sterkari einkenni einhverfu geta það ómögulega, og mér finnst snerting yfirleitt ekki óþægileg á meðan sumum finnst óvænt snerting sársaukafull.
Ég skil kaldhæðni og grínast alveg rosalega mikið á meðan aðrir á rófinu gera það ekki.
Ég hef engan sérstakan áhuga á afmælisdögum eða köttum (listinn er óendanlegur um það sem fólki gæti dottið í hug að við höfum áhuga á), en ég er aftur á móti mjög upptekin af því að vera tónlistarkona og með brjálaðan metnað fyrir því að vinna á leikskóla.
Þessi tilhneiging fólks að stereótýpísera okkur er alveg óþolandi og gæti bitnað á mér úti á vinnumarkaði eins og þegar ég var spurð á einum leikskóla hvort ég eigi erfitt með að taka utan um börn sem þarfnast huggunar. What!!? Mér finnst mjög gott að faðma lítil börn jafnt sem fullorðna. Það væri nú frekar að ég ætti að passa mig að gera ekki of mikið af því.
Þetta er svo rétt hjá þèr og er alveg óþolandi. Eg hef fengið að heyra svo miklar vitleysur og ranghugmyndir varðandi þetta líka, en byggðar á vanþekkingu fyrst og fremst. Með aukinni umræðu verður þetta skiljanlegra vonandi