Mér datt í hug að taka fyrir eina og eina óskrifaða reglu í blogginu mínu og kafa dálítið í hana. Hér er sú fyrsta sem mér datt í hug, en það var í kringum unglingsárin sem ég fór að brjóta heilann um það hver tilgangurinn væri með því að horfa í augu.
Mín fyrsta tilgáta var sú að það er borin meiri virðing fyrir þeim sem geta horft lengi í augu án þess að líta undan. Það er merki um gott sjálfstraust. Þegar augu mín mættu einhverjum vinsælum í skólanum þá varð ég oft hrædd og leit strax undan. Ég þorði ekki að vera með í þessum leik vegna þess að ég vissi að ég myndi tapa.
Ég þráði samt svo heitt að vera meðtekin af jafnöldrum mínum og fór þess vegna að æfa mig, þrátt fyrir að það væri virkilega pínlegt. Það er ekki borin virðing fyrir neinum sem getur ekki horft í augu. Ég vildi ekki vera aumingi.
Þetta kom smátt og smátt hjá mér, en ég æfði mig fyrst á þeim sem voru með mér í kennslutíma og sátu langt frá mér. Ég passaði mig samt að horfa ekki of lengi vegna þess að ég vildi ekki að sá/sú sem ég æfði mig á myndi halda að ég eigi eitthvað erindi við það. Við þessar æfingar kom smá sjálfstraust hjá mér þannig að ég gat farið lengra með hana.
Áður fyrr forðaðist ég að horfa í augu ef ég mætti einhverjum sem var með mér í skóla eða bekk þegar ég var úti að labba, vegna þess að ég vissi ekkert hvernig ég átti að bera mig að. Núna gat ég í fyrsta sinn horft í augun á einhverju með erindi. Erindið var einfalt “hæ”. Síðan var það bara búið og ég hélt áfram að labba þangað sem ég ætlaði að fara.
“Jess! Mér tókst það!” hugsaði ég með mér, ánægð með sjálfa mig. Mér leið eins og ég væri ekkert skrýtin, bara venjuleg stelpa. Þegar ég var alveg komin upp á lagið með það að segja bara “hæ”, þá var það næsta skref, úff!! þá var maður kominn strax út í djúpu laugina.
Ég var kannski búin að plana og sjá fyrir mér stuttar vinsamlegar samræður sem byrjuðu svona:
“Hæ!”
“Hæ!”
“Hvað segir þú gott?”
“Allt fínt en þú?”
“Ég segi líka allt fínt. Hvert ertu að fara?”
En þegar manneskjan sem ég staldraði hjá til að spjalla við sagði eitthvað óvænt, var með útúrdúr frá handritinu mínu þá hrökk ég bara í kút. Ég vissi þá ekkert hvað ég átti að gera og hvernig ég gæti komið mér út úr þessum aðstæðum sem ég kom mér sjálf í. Að sjálfsögðu reyndi ég eins og ég gat að bera höfuðið hátt þrátt fyrir kvíðakastið. Áður en ég vissi af var ég sloppin á einhvern mjög klaufalegan máta. Mér gat liðið mjög illa yfir svona samtali og velt mér upp úr því í langan tíma á eftir, en ég lærði þó eitthvað.
Svona var þetta alltaf hjá mér þangað til ég fór að geta sagt fólki frá einhverfuröskuninni. Ég lærði að bera mig að eins og “eðlileg” manneskja með hjálp árekstra, tilrauna og mistaka.
Ég sé ekki eftir því að hafa lært að bera mig að eins og flest fólk, en þessi leið sem ég fór ætti ekki að vera neinum bjóðandi. Allir árekstrarnir, sársaukinn og skömmin sem fylgdi því að hafa ekki fengið greiningu sem barn tók sinn toll á mér. Ef ég hefði lært um einhverfurófið miklu fyrr, farið á námskeið, fengið leiðsögn hjá fullorðnum með reynslu af börnum á einhverfurófi þá hefði ég ekki þurft að upplifa svona mikla skömm fyrir mín feilspor í mannlegum samskiptum.
Það mætti kafa aðeins dýpra í tilgang þess að horfa í augu, sem getur verið margvíslegur, en ég ætla að láta þetta duga í bili.
Í næsta bloggi tek ég fyrir óskrifuðu reglu nr. 2 – Að brosa.